Skip to Content

Stefnur KF

Stefnur KF í jafnrétti kynþátta og fordóma, eineltis, vímuvörnum, fræðslu, forvarnarstarf og siðareglur

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar

... leggur áherslu á “Knattspyrna- leikur án fordóma”

... hvetur alla sem koma að knattspyrnu að leggja áherslu á að knattspyrnan sé leikinn á drengilegan og heiðarlegan hátt og umfram allt að sýna öðrum þátttakendum virðingu.

... leggur mikla áherslu á að jákvæð og öguð framkoma leikmanna KF ætti að vera markmið sérhvers leikmanna félagsins inn á vellinum.

... leggur árherslu á að þjálfarar félagsins hvetji leikmenn sína til að leika heiðarlega, enda eru þjálfarar fyrirmyndir leikmanna.

...leggur áherslu á að leikmenn félagsins leiki knattspyrnu án rifrilda við dómara leiksins og án alvarlegra leikbrota.

...leggur áherslu á að áhorfendur KF hvetji leikmenn sína áfram heiðarlega og útiloka öll
niðrandi og meiðandi ummæli í garð dómara og leikmanna inn á vellinum.

...leggur áherslu á að foreldrar og forráðamenn barna hvetji þau til að leika heiðarlega, mæta
vel á leiki og sýni góðan og drengilegan stuðning og forðist öll niðrandi og meiðandi ummæli í garð dómara og leikmanna. Foreldrar og forráðamenn eru fyrirmynda barna.

 

 

Hvað eru fordómar?

Fordómar eru þegar einhver er áreittur, útilokaður, sniðgengin(n) eða mismunað vegna
útlits, uppruna, kynþáttar, litarháttar, kynferðis, kynhneigðar, skoðana, trúar, fötlunar,
efnahags eða annara aðstæðna.
Það er staðreynd að á Íslandi verða einstaklingar fyrir fordómum og aðskasti
m.a. vegna uppruna síns. Öll þurfum við að leggja okkar af mörkum til að koma í veg
fyrir fordóma í knattspyrnunni og samfélaginu. Með samstilltu átaki getum við áorkað
miklu til þess að uppræta þennan vágest.

Hvað getum við gert?

Ef að einhver einstaklingur í kringum okkur er haldinn fordómum skaltu ekki taka undir
með viðkomandi heldur benda á að þú sér ekki sammála. Þú getur frætt aðra um fordómar
eiga ekki rétt á sér í knattspyrnunni eða annars staðar. Einnig getur þú beðið fólk um að
setja sig í spor þess sem að það fordæmir og reyna að opna augu viðkomandi fyrir þessari
vá. Við eigum að koma fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur.
Sýnum þeim sem verða fyrir fordómum stuðning og reyndu að liðsinna þeim.
Ef að þú verður fyrir fordómum, mundu að þú stendur ekki ein/einn. Reyndu að finna
einhvern sem stendur með þér og styður þig og þú getur talað við. það geta verið vinir,
foreldrar, þjálfarar eða einhver sem að þú treystir.

Hvað er einelti?

Einelti er að ofsækja einhvern með endurtekinni stríðni, ilkvittnum uppnefnum, ógnandi
árásargjarnri framkomu og útilokun frá félagsskap. Oft er erfitt að greina einelti en það
birtist því miður í flestum hópum í okkar samfélagi. Eineltið birtist t.d. oft í þeirri mynd
að einhver er skilin(n) eftir útundan. Einelti veldur jafnan miklum kvíða hjá viðkomandi
og vanlíðan. Öll þekkjum við einhvern einstakling sem að hefur verið strítt en hefurðu
hugsað hvernig þér myndi líða í hans sporum? Einelti er eitthvað sem að við viljum alls
ekki sjá í knattspyrnunni frekar en annars staðar.

Hvað getum við gert?

Þú getur sleppt því að taka þátt í eineltinu. Þú getur einnig sagt öðrum frá t.d. vinum
þínum að það sé rangt að leggja einhvern í einelti. Börn geta sagt þjálfara, eða öðrum
fullorðnum sem að þau treysta frá eineltinu. Mjög mikilvægt er að sýna þeim sem verður
fyrir eineltinu stuðning með því að ganga til liðs við hann/hana og mótmæla svona
framkomu. Ef að þú gerir ekkert og þegir heldur viðkomandi að þér finnist þetta sllt í lagi
og þú tekur þar með þátt í eineltinu. Hvernig fyndist þér ef svona væri komið fram við
þig?
Ef að þú verður sjálfur fyrir einelti, mundu að þú stendur ekki ein/einn. Reyndu að finna
einhvern sem stendur með þér og styður þig og þú getur talað við. Það geta verið vinir,
foreldrar eða þjálfarinn, einhver sem að þú treystir.


* Byggt á heimildum Leikur án fordóma samvinnuverkefni UEFA, KSÍ og
Mastercard.

 

Jafnréttisstefna KF

Markmið

*Börn og unglingar í Fjallabyggð eiga jafnan rétt og möguleika til að stunda knattspyrnuiðkun með KF óháð, kyni, fötlun, uppruna eða efnahag.

*Piltar og stúlkur hafa jafna möguleika til að stunda knattspyrnu hjá KF.

*KF gerir sömu hæfniskröfur til þjálfara pilta og stúlkna.

*KF hvetir jafnt pilta sem stúlkur til afreka í knattspyrnu.

*KF sér til þess að aðstaða og möguleikar beggja kynja til afreka sé jöfn.

*Leitast er við að kynjahlutföll séu sem jöfnust í stjórnum félagsins og deilda svo og öðrum trúnaðarstörfum innan KF.

 

Leiðir

Reglur Fjallabyggðar um frístundastyrk.

Samningar við fyrirtæki sem styrkja barna og unglingastarf KF.

Næg aðstaða og æfingatímar séu í boði í íþróttamannvirkjum í Fjallabyggðar.

Framboð íþróttagreina sé til jafns fyrir bæði kynin.

Jafnræðis milli pilta og stúlkna sé gætt við úthlutun æfingatíma í íþróttamannvirkjum.

Jafnhæfir þjálfarar séu til staðar fyrir bæði pilta og stúlkur.

Hvetja alla þjálfara félaga og deilda til að bæta við menntun sína.

KF tilnefnir bæði kyn þegar velja á íþróttamann Fjallabyggðar

Jafngóð æfinga- og keppnisaðstaða fyrir bæði kyn innan félagsins.

Sömu fjárstyrkir og hlunnindi beggja kynja innan félagsins.

Reglugerð styrkja hjá UÍF.

Tryggja þarf að viðhorf og sjónarmið beggja kynja og allra hópa komi fram við ákvarðanir stjórna og deilda innan KF.

 

VÍMUVARNARFORVARNIR

Forvarnarstefna KF

 

Mikilvægt er að íþróttahreyfingin sé trúverðug í fræðslu- og forvarnarstarfi. Áfengis- og eða tóbaksneysla á ekki að eiga sér stað í tengslum við íþróttastarf.

Íþróttahreyfingin gegnir mikilvægu hlutverki í vímuvörnum. Rannsóknir á högum barna og ungmenna sýna að þeim ungmennum reiðir betur af og neyta síður vímuefna sem eru virk í íþróttastarfi. Einnig sýna rannsóknir að neysla vímuefna og tóbaks hafa mjög skaðleg áhrif á árangur í íþróttum. KF setur sér reglur og/eða marki sér stefnu í forvarnarmálum samkvæmt stefnu ÍSÍ. KF fræði börn og unglinga um skaðsemi vímuefna, auk þess sem þau fræði sínu ungu iðkendur um lyfjamál og bendi þeim á þær hættur sem geta fylgt lyfjanotkun. KF vill efla enn frekar vímuvarnagildi íþrótta með því að taka skýra afstöðu gegn neyslu í tengslum við íþróttir.

 

Leiðir

*Að knattspyrnusvæði í Fjallabyggð séu algerlega reyklaus

*Setja fram markvissa stefnu þar sem tekin er einörð afstaða gegn neyslu

á áfengi, tóbaki og fíkniefnum

*Gefa út fræðsluefni um fíkniefni og forvarnir fyrir þjálfara og iðkendur

*KF er andvígt allri neyslu tóbaks og vímuefna allra iðkenda og annarra félagsmanna sem koma að íþróttastarfi á vegum félagsins.

*Öll neysla tóbaks og vímuefna er bönnuð í tengslum við æfingar og keppni á vegum KF.

*KF mun bregðast sérstaklega við allri neyslu iðkenda undir 18 ára aldri og foreldrar verða undantekningarlaust upplýst um slíka neyslu.

*Að auka þekkingu á neikvæðum áhrifum áfengis, tóbaks og annarra fíkniefna á þjálfun og árangur í íþróttum.

*Að styrkja þá ímynd að íþróttaiðkun og fíkniefnaneysla séu andstæður.

 

Eineltisstefna KF

 

Einelti er ofbeldi sem ekki er liðið innan KF. Þetta er samfélagslegt vandamál sem getur snert okkur öll. Nauðsynlegt er að upplýsa alla um einelti og gera þá meðvitaða um að standa á vaktinni til að uppræta það. Börnum og unglingum á að líða vel í íþróttafélögum.

 

Hvað er einelti?

Einelti er endurtekið ofbeldi þar sem einn eða fleiri gerendur ráðast ítrekað á þolanda eða níðast á honum. Ofbeldið getur verið líkamlegt, andlegt, efnislegt og félagslegt.

*Líkamlegt einelti: Þolanda er haldið föstum, lokaður inni, hrint, hárreittur, klipinn, sparkað í hann o.fl.

*Andlegt einelti: Þolandi fær hótanir og neikvæð SMS boð, særandi umfjöllun á netmiðlum, er þvingaður til að gera eitthvað sem stríðir gegn réttlætiskennd sinni, er þvingaður til að eyðileggja eigur annarra, girt niður um hann o.fl.

*Efnislegt einelti: Eigur þolanda eru ítrekað teknar, faldar eða eyðilagðar.

*Félagslegt einelti: Þolanda er strítt, er skilinn útundan, gert er lítið úr honum, verður fyrir særandi athugasemdum (eftirherma, andvörp, svipbrigði) o.fl.

 

Hvernig fara gerendur að?

*T.d. slá, hrinda, binda, elta, uppnefna, hæða, eyðileggja eignir, (það sem heyrist og sést).

*T.d. spilla fyrir, baktala, skilja útundan, hundsa, afskiptaleysi af einelti (það sem oft heyrist ekki eða sést).

*Báðar aðferðirnar valda miklum sársauka og eru ólíðandi. Drengir nota oftaraðferðir sem heyrast og sjást en stúlkur.

 

Hvar á eineltið sér stað?

* Getur gerst hvar sem er t.d. í samskiptum, í skilaboðum (sms/msn) og á netmiðlum.

* Gerist helst þegar börn og unglingar eru eftirlitslaus og hafa lítið fyrir stafni.

* Í íþrótta- og æskulýðsstarfi eru búningsklefar og sturtur sérstaklega varasamir staðir.

 

 

Hverjir eru teknir fyrir?

* Allir geta orðið fyrir einelti.

 

Hverjir taka fyrir?

* Allir geta verið gerendur eineltis, mikilvægt er að fylgjast með birtingarmynd eineltis sbr. lið 2.

* Oft er það hópur barna- og unglinga sem tekur þátt með beinum aðgerðum eða aðgerðaleysi.

 

Hver eru viðbrögð þolenda / afleiðingar?

* Eftirfarandi atriði geta verið vísbending um að barn sé lagt í einelti:

Forðast vini og önnur börn.

Lokar sig af og hættir að sinna áhugamálum sínum.

Líður illa en vill ekki segja hvað er að.

Er pirrað eða stjórnlaust í skapi, rýkur upp að litlu tilefni.

Minnkandi sjálfstraust.

Grætur sig í svefn og fær martraðir.

Atast í systkinum eða foreldrum.

Líkamlegar kvartanir og kvíðaeinkenni t.d. höfuðverkir, magaverkir.

Breyttar svefn- og matarvenjur.

Er með marbletti og skrámur sem ekki er hægt að útskýra.

Er hrætt við að fara á milli staða, vill láta aka sér.

Seinkoma í og úr skóla og íþrótta- og tómstundastarfi.

Vill ekki fara í skóla eða í íþrótta- og tómstundastarf.

Fer óvenjulegar leiðir á milli staða.

Er svangt þegar heim er komið.

Fer að ganga verr í skólanum.

Týnir hlutum t.d. fötum og bókum.

Týnir vasapeningum af og til.

 

 

Hverjir eiga að taka á einelti?

* Allir sem vinna með börnum og unglingum; gangaverðir, þjálfarar, kennarar, leiðbeinendur, skólaliðar, baðverðir og forráðamenn.

* Forsvarsmenn allra félaga og stofnana og þeir sem hafa með málefni barna og unglinga að gera bera ábyrgð á því að einelti líðist ekki.

* Það er á ábyrgð okkar allra að bregðast við.

 

Hvernig á að bregðast við?

* Taka einelti alvarlega og afla upplýsinga þegar mál koma upp. Tala við þolanda og styðja hann. Gera þolanda grein fyrir því að eineltið sé ekki honum að kenna.

* Gera gerendum ljóst að einelti er alvarlegt ofbeldi sem getur haft varanleg áhrif. Gera þeim grein fyrir að einelti er ólíðandi og hjálpa þeim við að breyta rétt.

* Vera í samstarfi og upplýsa forráðamenn. Sjá til þess að öll mál sem upp koma verði leyst.

 

Hvernig er hægt að fyrirbyggja einelti?

* Einelti þrífst vegna aðgerðaleysis fjöldans. Allir þurfa því að taka meðvitaða afstöðu gegn einelti. Eflum umburðalyndi, virðingu og samkennd meðal barnanna.

* Einelti á erfitt uppdráttar þar sem samræmi og samstarf einkennir starf þeirra sem vinna með börnum og unglingum. Ef ekki er tekið á málum strax er hætta á að eineltið breiðist út og fleiri og fleiri leggist á sveif með gerendunum.

* Einelti á erfitt uppdráttar þar sem jákvæður agi, festa, velvilji, hrós og væntumþykja einkennir stjórnunarhætti.

 

FRÆÐSLU OG FORVARNARSTARF

 

SIÐAREGLUR

 

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar (KF) setti á laggirnar faghóp fólks úr félaginu sem fékk það hlutverk að setja saman siðareglur fyrir félagið. Markmiðið var að reglur þessar yrðu leiðarljós fyrir einstaklinga og hópa innan KF varðandi hegðun og samskipti. Einnig var krafa um að þær tækju mið að lögum og reglum í samfélaginu. Siðareglur Knattspyrnudeildar FH voru notaðar sem heimild við vinnuna.

 

Stjórnarmaður / starfsmaður:

...hvetur félagsmenn til að standa vörð um anda og gildi félagsins og sér um að hvoru tveggja lifi áfram meðal félagsmanna.

...kemur fram við alla félagsmenn sem jafningja, óháð kyni, getu, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, litarhætti og kynhneigð.

...við hefur ávallt lýðræðisleg vinnubrögð.

...upplýsir félagsmenn og gerir þá að þátttakendum í ákvarðanatöku innan félagsins.

...er til fyrirmyndar hvað varðar hegðun og framkomu innan félags sem utan.

...ber ábyrgð gagnvart félaginu og iðkendum.

...ber meðvitaður um að félagið byggir upp og mótar einstaklinga.

...rekur félagið eftir löglegum reiknisskilaaðferðum og haga útgjöldum í samræmi við tekjur.

...notfærir aldrei stöðu sína hjá félaginu til eigin framdráttar á kostnað félagsins.

...nýtir gagnrýni félagsmanna til uppbyggingar í félaginu.

 

Þjálfari:

...kemur fram við alla iðkendur á einstaklingsgrunni og út frá þeirra forsendum.

...velur æfingar, mót, keppnir sem eru við hæfi iðkenda með tilliti til aldurs, reynslu og hæfileika.

...styrkir jákvæða hegðun og framkomu iðkenda.

...heldur á lofti heiðarleika (Fair Play) innan íþróttarinnar.

...kennir iðkendum að viðurkenna og bera virðingu fyrir ákvörðunum dómara.

...kennir iðkendum að bera ábyrgð á eigin hegðun og framförum í íþróttinni.

...er heiðarlegur, jákvæður, réttlátur og umhyggjusamur gagnvart iðkendum.

...viðhefur jákvæða gagnrýni og forðast neikvæða gagnrýni.

...hugsar ávallt um heilsu og heilbrigði iðkenda og varast að setja þá í aðstöðu sem gæti ógnað heilbrigði þeirra.

...talar gegn notkun ólöglegra lyfja.

...talar gegn neyslu áfengis og tóbaks.

...leitar eftir samstarfi við aðra þjálfara eða sérfræðinga þegar þess þarf.

...viðurkennir rétt iðkandans til að leita ráða frá öðrum þjálfurum.

...samþykkir aldrei ógnandi eða ofbeldisfulla tilburði.

...forðast náið samband við iðkendur og vera einn með iðkanda.

...þarf leyfi forráðamanna yngri iðkenda til að aka þeim á æfingar eða í leiki.

...er meðvitaður um hlutverk sitt sem fyrirmynd bæði utan og innan vallar.

...kemur eins fram við alla iðkendur óháð, getu, kyni, kynþætti, stjórnmálaskoðunum, trúarbrögðum og kynhneigð.

...notfærir sér aldrei aðstöðu sína sem þjálfari til að uppfylla eigin áhuga á kostnað iðkandans.

...er ábyrgur á félagslegri, andlegri og líkamlegri uppbyggingu iðkenda.

...leyfir iðkendum að koma að ákvarðanatöku.

...er ábyrgur fyrir stemmingunni í hópnum.

...er börnum fyrirmynd í því að taka ósigri með jafnaðargeði, taka sigri hrokalaust og sýna andstæðingum kurteisi.

 

 

Iðkandi:

...gerir alltaf sitt besta.

...virðir alltaf reglur og venjur varðandi heiðarleika (Fair Play) í íþróttum.

...sýnir öllum iðkendum virðingu, samherjum sem mótherjum.

...ber virðingu, er heiðarlegur og opinn gagnvart þjálfurum og forystufólki félagsins sem ber ábyrgð á sér við æfingar og keppni.

...forðast neikvætt tal eða niðurlægjandi köll um samherja, mótherja, dómara, þjálfara eða starfsmenn félagsins.

...kemur fram við aðra eins og hann vill að aðrir komi fram við sig.

...sýnir stundvísi við mætingar á æfingu, í keppni og í annað sem viðkemur félaginu.

...virðir ákvarðanir dómara og annarra starfsmanna leiksins eða mótsins.

...sýnir aldrei ógnandi eða ofbeldisfulla tilburði.

...ber virðingu fyrir hæfileikum og getu annarra.

...tekur ábyrgð á framförum sínum og þroska.

...er til fyrirmyndar í framkomu og hegðun innan sem utan vallar.

 

Yngri iðkandi:

...tekur þátt í íþróttum á eigin forsendum en ekki til að þóknast forráðamönnum eða þjálfurum.

 

Eldri iðkandi:

...hugsar um heilbrigði sitt, forðast að taka áhættu varðandi heilsu sína og notar aldrei ólögleg lyf til að bæta eigin árangur í íþróttum.

...er fyrirmynd yngri iðkenda félagsins.

...forðast náin samskipti við þjálfara sinn.

 

Foreldri / forráðamaður:

...hvetur börn til þátttöku í íþróttum, þvingar þau aldrei.

...hrósar öllum iðkendum á meðan æfingu, leik eða keppni stendur ekki aðeins sínu barni.

...hvetur iðkendur bæði þegar vel gengur og þegar á móti blæs.

...gerir ekki grín að iðkanda ef mistök eiga sér stað.

...hvetur iðkendur til að fara eftir og virða reglur íþróttanna og leysa deilur án fjandskapar eða ofbeldis.

...er börnum fyrirmynd í því að taka ósigri með jafnaðargeði, taka sigri hrokalaust og sýna andstæðingum kurteisi.

...lærir að meta þátttöku sjálfboðaliða hjá félaginu því án þeirra hefðu iðkendur ekki möguleika á að stunda æfingar og keppni með félaginu.

...ber virðingu fyrir störfum þjálfarans og reynir ekki að hafa áhrif á störf hans meðan á leik eða keppni stendur.

...lítur á dómarann sem leiðbeinanda iðkenda, gagnrýnir ekki ákvarðanir hans.

...ræðir við barn um hvernig æfing, mót eða leikur hafi gengið og hvort það hafi verið skemmtilegt eða spennandi, úrslitin eru ekki alltaf aðalatriðið.

...virðir rétt hvers iðkanda óháð kyni, kynstofni eða trúarbrögðum.

...lætur áhuga barna og ánægju af íþróttaiðkun stýra íþróttaþátttöku þeirra. Börn eiga ekki að vera í íþróttum eingöngu til að gleðja forráðamenn.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Drupal vefsíða: Emstrur